Það getur verið gott að hafa ákveðna reglu á hlutunum, t.d. kaupa alltaf fisk á mánudögum og lottómiða í leiðinni. Þetta er í það minnsta reynsla eldri hjóna í Hafnarfirði en þessi vikulega rútína skilaði þeim tæplega 21 milljón króna þegar þau voru ein með allar tölurnar réttar í Lottó um síðustu helgi.
Hjónin keyptu miðann og fiskinn í Fjarðarkaupum af gömlum vana en það var ekki fyrr en á miðvikudegi sem konan lét athuga miðann fyrir sig og henni sagt að hún yrði að fara beint í höfuðstöðvar Íslenskrar getspár. Þar fékk hún svo fyrst að vita hve hár vinningurinn reyndist vera og fylltist hún strax mikilli gleði og þakklæti.
Aðspurð sagði frúin vinninginn vissulega koma sér vel en þörfin væri þó örugglega brýnni annars staðar og myndu þau hjónin láta gott af sér leiða og leyfa börnum og barnabörnum að njóta með þeim. Konan er hætt að vinna en maður hennar hefur minnkað við sig starfshlutfallið á undanförnum árum. Og þótt hin vikulega ferð til að kaupa í soðið á mánudegi hafi svo sannarlega borgað sig, er aldrei að vita nema stóri vinningurinn geri það að verkum að einhverjar nýjar venjur taki nú við hjá þeim.
Starfsfólk Getspár/Getrauna óskar þessum heppnum hjónum innilega til hamingju með vinninginn og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlað fólk, sem og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af allri sölu Lottó.