Tveir tipparar unnu 2.5 milljónir hvor á Enska getraunaseðilinn í gær, þriðjudag. Annar tipparinn, sem er úr Grindavík, keypti sjálfvalsmiða í appinu og hafði ekki hugmynd um að hann hefði verið með 13 rétta þegar hringt var í hann í dag frá Íslenskum getraunum. „Ég heyrði auglýsingu frá Getraunum og hugsaði með mér, úr því að bróðir minn gat fengið 13 rétta hlýt ég að geta það líka svo ég keypti einn miða og notaði bara sjálfval“ sagði kampakátur tipparinn.
Hinn tipparinn sem styður Breiðablik keypti sinn fyrsta getraunaseðil á árinu og hafði þrítryggt tvo leiki og tvítryggt tvo leiki, þar á meðal lokaleik getraunaseðilsins sem var Man. Utd. – Aston Villa þar sem hann setti táknin 1 og X. „Ég var nú frekar svekktur með stöðuna í hálfleik þar sem Aston Villa leiddi með tveim mörkum, bæði af því að seðillinn var úti og líka vegna þess að ég er stuðningsmaður Man. Utd“ sagði tipparinn þegar haft var samband við hann í dag. Hann tók þó gleði sína á ný þegar Man. Utd gerði 3 mörk í síðari hálfleik, tryggði sér sigurinn og tipparanum 2.5 milljónir króna í vinning.